þriðjudagur, 26. maí 2009

Einelti


"Everyone has the right to be respected, and the responsibility to respect others."

Ég rakst á þessa setningu inn á norskum facebókar hópi sem ég skráði mig í gegn einelti í skólum.
Því má bæta við að skýringarnar á orðinu "responsibility" eru þær að fólk hefur "the ability to choose their own respons" eða með öðrum orðum þá hefur fólk getuna til að velja viðbrögð sín.

Einelti er því miður alvarlegt vandamál í skólum og alls ekki nýtt af nálinni. Í dag er munurinn bara sá að það er til orð yfir þessa tegund ofbeldis og flestir skólar hafa yfirlýst markmið um að einelti verði ekki liðið.

Það er þó mjög misjafnt eftir skólum og kennurum hvernig tekst til og flestir vita að það er ekki nóg að hafa háleit markmið, ef það er hvorki til vinnuáætlun um hvernig eigi að útfæra markmiðin, né að skólastjórnendur, kennarar og foreldrar séu í raun og veru mótiveraðir til að taka á málum af alvöru.

Vigernes skóli er einn af þessum skólum sem hefur það yfirlýsta markmið að einelti verði ekki liðið og öllum nemendum eigi að líða vel í skólanum. Gallinn er hins vegar að þar er engin sérstök áætlun í gangi um hvernig eigi að útfæra þessi markmið og undir hverjum og einum kennara komið hvernig hann tekur á málunum.

Einelti hefur því miður verið vandamál sem hefur loðað við bekkinn hennar Bryndísar undanfarin ár. Þar er ákveðinn stelpnahópur að verki og reglulega hefur þurft að taka á þessum málum, skýra mörkin og hafa umræðutíma í bekknum þar sem líðan og framkoma við aðra er rædd.

Og það er einmitt þarna sem áhugi og virkni kennara hefur svo mikil áhrif. Síðustu árin hefur bekkurinn hennar Bryndísar verið með mjög ákveðinn kennara sem hefur verið virkur í að fyrirbyggja einelti í bekknum með ýmsum ráðum ... og allt á jákvæðan hátt þannig að enginn tapi. Síðastliðinn vetur var svo skipt um kennara sem kom með allt aðrar áherslur og eineltið fór stigversnandi .

Á Íslandi eru nokkrir skólar sem eru farnir að vinna eftir Olweus áætluninni og Olweus á Íslandi er með fróðlega síðu sem ég hvet alla til að kíkja á og á síðunni er m.a góð grein fyrir foreldra sem vilja hafa sín augu opin fyrir þessu vandamáli. En það er með eineltið eins og svo margt annað, að forvarnirnar eru alltaf bestar og þar geta kennarar átt stóran þátt. Bestu forvarnirnar byrja þó heima fyrir og í raun löngu áður en skólaganga hefst.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Amen =)

Nafnlaus sagði...

lesa allt bloggid, nokkud gott