fimmtudagur, 28. maí 2009

Múslíbrauð

Það er orðið ansi langt síðan ég hef sett uppskriftir inn á bloggið. Bara leti í mér því stelpurnar eru alltaf að finna eitthvað skemmtilegt á netinu sem þær breyta og bæta eftir eigin höfði, því hráefni sem er fáanlegt og náttúrulega fjárhag heimilisins.

Ég bara nýt þess að vera tilraunadýr og er orðin allt of góðu vön. M.ö.o, þá eru dæturnar komnar með það markmið að gera mig aftur sjálfbjarga í eldhúsinu áður en þær flytja að heiman ...

En hér kemur mjög góð uppskrift að múslíbrauði sem hefur slegið í gegn á heimilinu. Apríkósurnar koma rosalega vel út og virka eins og marmelaði þegar brauðið er haft með osti. Upprunalega var þetta bolluuppskrift, en þar sem hún var frekar blaut og leiðinlegt að móta bollur úr henni, þá prófaði Hrund hana einhvern tímann í brauðformum og uppskriftin kom bara miklu betur út þannig.

4 dl undanrenna
5 dl vatn
2 msk matarolía (t.d Isio, hún er bragðlaus)
1 pk þurrger
1 tsk salt
350 gr hveiti
350 gr heilhveiti (grófmalað)
3 dl hafrar
200 gr gróft rúgmjöl
100 gr sólblómafræ (kjarnar)
150 gr heslihnetur
100 gr þurrkaðar apríkósur
150 gr rúsínur

Saxið niður hnetur og apríkósur (Hrund mælir þetta aldrei), blandið öllum hráefnum saman og látið lyfta sér á hlýjum stað í ca 30 mín. setjið svo í formin og látið lyfta sér aftur í ca 45 mín. Bakið við 200 í ca 30 - 40 mín.

Engin ummæli: