Ég tók mig til í dag og lét yfir 30 ára gamlan draum rætast. Ég keypti mér gönguskíði. Gönguskíði prófaði ég fyrst sem krakki með vinkonu minni og fékk skíðin þá lánuð hjá móður hennar. Í minni fjölskyldu var hins vegar ekki skíðahefð og í þá daga voru hlutir náttúrulega ekki keyptir án þess að tilefnið væri nokkuð stórt.
Þegar kom að auknum fjárráðum bloggarans, þá voru áherslurnar orðnar aðrar og skíði því ekki efst á forgangslistanum yfir nauðsynlegustu hluti í heimi. Fyrst var það föt og djamm, svo var það nám, síðan barnabasl með tilheyrandi útgjöldum, húsnæðiskaup, húsnæðisviðgerðir, viðgerðir og síðar endurnýjun á bíl, meira nám o.s.frv og frv. Amk aldrei rétti tíminn.
Í dag ákvað ég hins vegar að láta gamla drauminn minn rætast og í tilefni af því drifum við Kolbrún okkur út á gönguskíði í æðislegu veðri. Ég ákvað að taka myndavélina með í vasann og taka sjénsinn á því að hún yrði ekki fyrir hnjaski. Það tókst (ég passaði mig bara á að detta á hina hliðina :-)) og nokkrar af myndunum fá því að fara á bloggið.
laugardagur, 14. febrúar 2009
Draumur
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Frábært hjá þér. Þú átt örugglega eftir að eiga margar góðar stundir á skíðunum.
Skrifa ummæli