þriðjudagur, 25. nóvember 2008

Hún amma mín


Í dag, 25.nóvember, er afmælisdagur ömmu minnar Sveinsínu Bergsdóttur sem var fædd árið 1894. Ég man eftir ömmu sem ákaflega hlýrri og glaðlyndri konu sem gott var að vera nálægt. Hún var jafnframt mikil hannyrðakona, prjónaði sokka og vettlinga til gjafa og dúkarnir sem hún heklaði og strekkti voru með þeim fallegustu.

Amma var húnvetningur að uppruna, en giftist árið 1919 afa mínum, Ingimundi Bjarnasyni járnsmið og fluttist með honum til Sauðárkróks í húsið Árbakka sem stendur við Suðurgötu 5.


Í minningum Guðríðar B Helgadóttur í Árbakkaskýrslu (www.skagafjordur.is/upload/files/Arbakkaskyrsla2007yfir.pdf ) er að finna þessa fallegu lýsingu:

"Sveinsína var fríð kona, brúneygð og glöggskyggn mannþekkjari, glaðlynd, hagsýn húsmóðir og félagslynd framfaravera utan heimilis. Hún vann jöfnum höndum, þegar daglaunavinna gafst, í síld og fiskvinnu og öðru er til féllst, lét til sín taka í verkalýðsbaráttu, kvenfélagi og Leikfélagi Sauðárkróks þar sem hún lék í mörgum hlutverkum um árabil. Hún var fjölhæf kona og vel verki farin hvað sem hún tók sér fyrir hendur"


Í tilefni dagsins fór ég in á síðu Byggðasafns Skagfirðina og fékk "lánaða" mynd af húsinu Árbakka á Suðurgötu 5 (ljósmyndari SS) http://www.skagafjordur.is/displayer.asp?cat_id=336
og vona að þeir erfi þetta "lán" ekki við mig.


4 ummæli:

Harpa Jónsdóttir sagði...

Takk fyrir þetta!

Sveinn sagði...

Gaman að sjá þetta. Við Ingibjörg fórum norður í sumar og kíktum á húsið sem verður hrörlegra með hverju árinu. Við heimsóttum líka Siggu dóttur hennar Fríðu gömlu sem bjó á móti ömmu og afa og þú manst kannski eftir. Sigga býr enn á Laugabóli fram í sveit en er orðin ansi lasburða. Samt er hún á kafi í handavinnu og kvaddi okkur með gjöfum - hekluðum dúkum, ekki ósvipuðum þeim sem amma gerði.

Hildur sagði...

Það er orðið ansi langt síðan ég kom í húsið síðast, sennilega ein 12 ár. Smiðjan var til sýnis í tengslum við einhverja safnahátíð í bænum og þá fékk ég einmitt að skoða gamalt bókhald sem afi hafði haldið yfir eignir og skuldir, skráð af mikilli nákvæmni í litla bók sem var í hornskápnum í smiðjunni.
Fríðu man ég bara óljóst eftir en þeim mun betur eftir Bjössa í Ártúni sem var með hesta upp í gömlu hesthúsunum í brekkunni.

Unknown sagði...

Skemmtileg lýsing á ömmu. Ég hef nokkrum sinnum heimsótt húsið á síðustu árum og því miður er það ekki í góðu ástandi, en vonandi verður það gert upp innan tíðar og sýndur sá sómi sem því ber.