þriðjudagur, 30. september 2008

Flugdreki


Flugdreki, originally uploaded by HO Myndir.

Hún tók sig til daman og útbjó sér flugdreka. Gallinn við veðrið í Lilleström er hins vegar að það er lítið heppilegt fyrir flugdreka, þar sem það er yfirleitt logn. Svo var líka í gærkvöldi, en mín dó ekki ráðalaus og festi flugdrekann bara á trjágrein sem hún fann út í garði.

Og hlaupa svo


Og hlaupa svo, originally uploaded by HO Myndir.

Flugdrekinn náði að blakta smá með því að hlaupa með hann fram og til baka

sunnudagur, 28. september 2008

Á listasafni barnanna


Á listasafni barnanna, originally uploaded by HO Myndir.

Í viku 40 er alltaf haustfrí í grunn- og framhaldsskólum Noregs og stelpurnar eru sem sagt komnar í 9 daga frí talið með helgunum. Vikurnar fyrir fríið voru búnar að vera ansi annasamar hjá Hrund og Kolbrúnu enda var prófað í flestum fögum fyrir það og því próf upp á svo til hvern einasta dag. Hrund þarf þar að auki að skila ansi mörgum verkefnum eftir fríið og það kemur því til með að líkjast meir vinnutörn hjá henni.

Í dag fórum ég, Kolbrún og Bryndís á alþjóðlega barnalistasafnið (http://www.barnekunst.no/) inn í Osló og það er safn sem ég mæli með. Þarna var list alls staðar að úr heimsálfunni og endurspeglaði tilfinningar og hugsanir barna úr bæði ríkum og afar fátækum ríkjum. Boðið var upp á kennslu í bongótrommuáslætti og Bryndís fékk að búa til marglitaðann dreka úr pappaspjöldum undir leiðsögn föndurkennara frá Chile. Safnið er í gömlu einbýlishúsi í íbúðarhverfi, á þremur hæðum og á efstu hæðinni er brúðusafn þar sem myndin er tekin (áður en ég tók eftir öllum skiltunum þar sem stóð að myndatökur væru stranglega bannaðar).

sunnudagur, 21. september 2008

Gamli pílviðurinn við ána


Gamli pílviðurinn við ána, originally uploaded by HO Myndir.

Þessa mynd tók Bryndís af gamla pílviðnum sem stendur við ána og slútir yfir hana. Eitt af fallegri trjám bæjarins.

Við ána


Við ána, originally uploaded by HO Myndir.

Það var algjör stilla við ána í dag og margir sem sátu á bakkanum með veiðistöngina sína.

Smá brekka


Smá brekka, originally uploaded by HO Myndir.

Víííííí........

Haust


Haust, originally uploaded by HO Myndir.

Nú er haustið komið og rauðu litirnir farnir að stinga sér inn á milli grænu litanna. Það er samt merkilega mikið af sumarblómum í bænum sem líta bara vel út miðað við árstímann.

Gult


Gult, originally uploaded by HO Myndir.

Þetta tré finnst mér ævintýralega fallegt á litinn. Ég veit ekkert hvaða tegund þetta er en það stendur við lestarstöðina og það virkar stundum eins og það gefi birtu sjálft.

þriðjudagur, 16. september 2008

Vörnin

Nei, það er svo sem ekki komið að doktorsvörninni ennþá. Enda enn með masterinn. En það mætti örugglega nota ýmislegt af þessum hugmyndum..... Mér líst t.d. best á þessa síðustu með "interpretive dance"

fimmtudagur, 11. september 2008

Stoltur bakari


Stoltur bakari, originally uploaded by HO Myndir.

Síðdegis í gær var rigning og súldarlegt úti og mín ákvað að finna sér eitthvað til dundurs. Þar sem systurnar voru í blaki og lítið gaman að móður sem situr fyrir framan tölvuna og skrifar, ákvað hún að baka. Úr varð verulega gómsæt marmarakaka sem var borðuð með mikilli ánægju eftir kvöldmatinn.

miðvikudagur, 10. september 2008

Teikning


Teikning, originally uploaded by HO Myndir.

Að teikna er eitt af því skemmtilegasta sem hún veit

mánudagur, 8. september 2008

Let´s put a smile on your face


Let´s put a smile on your face, originally uploaded by HO Myndir.

Já, stærsta systir tók sig til einu sinni sem oftar, settist ofan á miðjusystur þannig að hún gat sig hvergi hreyft og í þetta skiptið varð andlitsmálun fyrir valinu. Eða réttara sagt jókerinn úr 3ju Batman myndinni.
Reyndar ekki í fyrsta skipti sem Kolbrún fær að kenna á "listrænum áhuga" systur sinnar. Það rifjaðist upp skipti fyrir nokkrum árum, þar sem ég kom heim úr vinnu einn daginn og í dyrunum mætti mér Kolbrún með marblett á enni og glóðarauga. Og stór systir sem stóð með sakleysissvip að baki og upplýsti skelfingu lostna móður um það að Kolbrún hefði gengið á staur á leiðinni heim úr skólanum. Og miðað við hrakfallasöguna sem daman átti að baki gegnum árin, hvarflaði ekki annað að mér en að trúa þessu. Ég skyldi bara ekkert í því að barnið hefði ekki fengið höfuðhögg miðað við hvernig hun leit út. En sannleikurinn kom svo í ljós þegar systurnar gátu ekki lengur haldið niðri í sér hlátrinum.

föstudagur, 5. september 2008

Bakstur


Bakstur, originally uploaded by HO Myndir.

Þær tóku sig til í gær vinkonurnar og ákváðu að baka muffins fyrir bekkinn sinn og fara með í skólann í dag. Uppskriftina fundu þær í bók sem Nanna átti og þær voru snöggar að skella í þetta. Ekki fanst þeim við hæfi að vera bara með bert muffins svo að þær bættu við súkkulaðikremi úr dós og súkkulaðirúsínum ofan á. Þetta varð sem sagt ansi sætt og úr varð að þær hættu við að fara með þetta í skólann. Enda hefði kennarinn sennilega staðið uppi með 24 ofvirk börn eftir nestistíma með þessum muffinskökum.

fimmtudagur, 4. september 2008

Á Sørensgård


Á Sørensgård, originally uploaded by HO Myndir.

Í gær fórum við Bryndís á "búgarðinn" sem er í ca 5 mínútna göngufjarlægð. Þetta er vinsæll staður til að fara með börnin á og hjá skokkurum að hlaupa í gegn um. Svæðið er opið og aðgangur ókeypis en samt aðeins hægt að sjá þau dýr sem eru úti þá stundina. Á miðju svæðinu er svo Uxa"fjallið" sem er gróin hæð og vinsæl hjá krökkum og í fyrra var mikið um að bekkurinn hennar Bryndísar færi þangað í tengslum við náttúrufræðina.

Flottur


Flottur, originally uploaded by HO Myndir.

Hann hafði mikinn áhuga á myndavélinni þessi.

Á hestbaki


Á hestbaki, originally uploaded by HO Myndir.

Hún komst nú reyndar ekki mjög langt á honum.

Úrhelli


Úrhelli, originally uploaded by HO Myndir.

Þetta er veðrið í dag og maður er snöggur að blotna.

Nanna og Bryndís


Nanna og Bryndís, originally uploaded by HO Myndir.

Þær komu úr skólanum alveg rennandi blautar og Nanna sem býr í næsta húsi var send heim til sín að skipta um föt áður en hún kom aftur yfir. Það var hins vegar ansi gott að hita sér upp afganga frá gærdeginum í örbylgjunni eftir rigninguna. Nanna með smjörauga í grjónagrautnum að norskum sið og Bryndís með kanil.