
Hún Bryndís tók að sér að teikna síðustu bloggmynd ársins í tilefni jólanna og ég vil nota tækifærið og óska fólki gleðilegra jóla með von um að komandi ár verði öllum gæfuríkt í lífi, leik og starfi.
If you do what you’ve done, you’ll go where you’ve gone
Þegar við Bryndís komum af tónleikunum í gær, beið okkar þessi líka flotta hnetukaka sem Hrund bjó til og eins og venjulega finnst mér alltaf að uppskriftum verði að deila ;-)
5 egg
200g sykur
250 gr heslihnetukjarnar
250 gr möndlur
1 tsk lyftiduft
100 gr dökkt súkkulaði
Eggin eru þeytt saman og því lengur sem þau eru þeytt, þeim mun loftmeiri verður kakan. Hnetur og möndlur eru malaðar og blandað saman við þeyttu eggin ásamt lyftiduftinu. þessu er svo skellt í form og bakað við 200 gráður í ca 35 mín. Þegar kakan hefur bakast er súkkulaðið brætt í vatnsbaði og sett á kökuna.
Við höfðum þeyttan rjóma með kökunni sem passaði mjög vel, en hún kæmi örugglega einnig vel út með ferskum jarðarberjum og kiwi.
Ég fór á alveg frábæra jólatónleika í gær sem voru haldnir í sal tónlistarskólans. Algjör veisla af píanóleik og í einu tilviki var leikið saman á pianó og þverflautu. Ég var náttúrulega með myndavélina stillta á upptöku, en athugaði hins vegar ekki að hafa hana lárétta og því kom myndbandið út á hlið. Og hvernig sem ég reyni finn ég ekkert prógram í tölvunni til að snúa því við. Það verða hins vegar aðrir tónleikar á þriðjudagskvöldið og ég hlakka mikið til :-)
Gærdagurinn var rólegur hjá mér og Bryndísi. Stóru systurnar voru á blakmóti og frostið úti var 10 gráður. Við fórum þó niður í bæ og Bryndís var töluvert úti með sínum vinkonum en þess á milli sat hún við skriftir. Hún er nefnilega að semja sögu þessa dagana sem á að vera jólagjöf og kláraði 3ja kaflann í gær. Ég má náttúrulega ekki segja frá efni sögunnar til að eyðileggja ekki leyndardóm jólgjafarinnar, en sá sem fær hana verður heppinn :-)
Það er frábært færi í bænum fyrir skíðasleða núna (og að sjálfsögðu gönguskíði). Við Bryndís fórum hring um bæinn fyrr í dag og skiptumst á að sitja og ýta. Veðrið var eins og best var á kosið, blankalogn og 0 gráður.
Miðjan mín á afmæli í dag og var því vakin fyrir kl 7 í morgunn með afmælissöng og pökkum samkvæmt heimlishefðinni.
Þar sem Kolbrún er fædd undir merki Bogmannsins, fannst mér upplagt að setja inn smá lýsingu á þeim sem eru fæddir undir því merki og fann skemmtilega lýsingu á vefnum stornuspeki.is sem mér fannst bara passa mjög vel.
"Hinn dæmigerði Bogmaður er athafnamaður sem þarf hreyfingu, líf og fjölbreytni.
Eitt sterkasta einkenni Bogmannsins er fróðleiksþorsti. Hann vill kynnast heiminum, þráir þekkingu og vill hafa yfirsýn yfir margvíslegustu málefni. Hann nýtur þess að ferðast, læra og fást við verkefni sem víkka sjóndeildarhring hans.
Bogmaðurinn er að öllu jöfnu jákvæður, hress og bjartsýnn. Hann er þægilegur í umgengni og þykir skemmtilegur félagi. Hann er lítið gefinn fyrir að búa til vandamál og vill sjá og sér bjartari hliðar tilverunnar. Hann er því oft líflegur og hressilegur. Það er oft sagt um Bogmanninn að hann sé heppinn. Það er líklega vegna þess að hann er glaðlyndur og því finnst fólki gaman að gera honum greiða. Einnig fer hann víða, prófar margt og er opinn fyrir tækifærum. Hann þorir að breyta til og takast á við ný verkefni."
Þessa mynd tók Bryndís af trékallinum sem hún kom með heim úr skólanum í dag. Á mánudaginn fór hún ásamt bekknum sínum upp á Oksefjellet og verkefnið var að finna trjágreinar til að tálga. Síðan voru greinarnar málaðar og útkoman var þessi flotti jólasveinn :-)
Það snjóaði smá um helgina og mín var náttúrulega strax komin út í snjókarlagerðina. Ég rakst hins vegar á skemmtilegt ljóð um snjókarlagerð í ljóðasafni sem heitir Årstidene og var gefið út árið 1964. Ljóðið er eftir Hermann Aune (hera) og heitir Snømann.
Jeg ser at Tulla
er flittig nå
hun lager snømann
med nese på
Jeg står og tenker:
Hvor rart det er
at snø og nedbør
og styggevær
kan løse evner
og skapekraft
og bli til snømenn
med kosteskaft.
(hera)