
Hún Bryndís tók að sér að teikna síðustu bloggmynd ársins í tilefni jólanna og ég vil nota tækifærið og óska fólki gleðilegra jóla með von um að komandi ár verði öllum gæfuríkt í lífi, leik og starfi.
If you do what you’ve done, you’ll go where you’ve gone
Þegar við Bryndís komum af tónleikunum í gær, beið okkar þessi líka flotta hnetukaka sem Hrund bjó til og eins og venjulega finnst mér alltaf að uppskriftum verði að deila ;-)
5 egg
200g sykur
250 gr heslihnetukjarnar
250 gr möndlur
1 tsk lyftiduft
100 gr dökkt súkkulaði
Eggin eru þeytt saman og því lengur sem þau eru þeytt, þeim mun loftmeiri verður kakan. Hnetur og möndlur eru malaðar og blandað saman við þeyttu eggin ásamt lyftiduftinu. þessu er svo skellt í form og bakað við 200 gráður í ca 35 mín. Þegar kakan hefur bakast er súkkulaðið brætt í vatnsbaði og sett á kökuna.
Við höfðum þeyttan rjóma með kökunni sem passaði mjög vel, en hún kæmi örugglega einnig vel út með ferskum jarðarberjum og kiwi.
Ég fór á alveg frábæra jólatónleika í gær sem voru haldnir í sal tónlistarskólans. Algjör veisla af píanóleik og í einu tilviki var leikið saman á pianó og þverflautu. Ég var náttúrulega með myndavélina stillta á upptöku, en athugaði hins vegar ekki að hafa hana lárétta og því kom myndbandið út á hlið. Og hvernig sem ég reyni finn ég ekkert prógram í tölvunni til að snúa því við. Það verða hins vegar aðrir tónleikar á þriðjudagskvöldið og ég hlakka mikið til :-)
Gærdagurinn var rólegur hjá mér og Bryndísi. Stóru systurnar voru á blakmóti og frostið úti var 10 gráður. Við fórum þó niður í bæ og Bryndís var töluvert úti með sínum vinkonum en þess á milli sat hún við skriftir. Hún er nefnilega að semja sögu þessa dagana sem á að vera jólagjöf og kláraði 3ja kaflann í gær. Ég má náttúrulega ekki segja frá efni sögunnar til að eyðileggja ekki leyndardóm jólgjafarinnar, en sá sem fær hana verður heppinn :-)
Það er frábært færi í bænum fyrir skíðasleða núna (og að sjálfsögðu gönguskíði). Við Bryndís fórum hring um bæinn fyrr í dag og skiptumst á að sitja og ýta. Veðrið var eins og best var á kosið, blankalogn og 0 gráður.
Miðjan mín á afmæli í dag og var því vakin fyrir kl 7 í morgunn með afmælissöng og pökkum samkvæmt heimlishefðinni.
Þar sem Kolbrún er fædd undir merki Bogmannsins, fannst mér upplagt að setja inn smá lýsingu á þeim sem eru fæddir undir því merki og fann skemmtilega lýsingu á vefnum stornuspeki.is sem mér fannst bara passa mjög vel.
"Hinn dæmigerði Bogmaður er athafnamaður sem þarf hreyfingu, líf og fjölbreytni.
Eitt sterkasta einkenni Bogmannsins er fróðleiksþorsti. Hann vill kynnast heiminum, þráir þekkingu og vill hafa yfirsýn yfir margvíslegustu málefni. Hann nýtur þess að ferðast, læra og fást við verkefni sem víkka sjóndeildarhring hans.
Bogmaðurinn er að öllu jöfnu jákvæður, hress og bjartsýnn. Hann er þægilegur í umgengni og þykir skemmtilegur félagi. Hann er lítið gefinn fyrir að búa til vandamál og vill sjá og sér bjartari hliðar tilverunnar. Hann er því oft líflegur og hressilegur. Það er oft sagt um Bogmanninn að hann sé heppinn. Það er líklega vegna þess að hann er glaðlyndur og því finnst fólki gaman að gera honum greiða. Einnig fer hann víða, prófar margt og er opinn fyrir tækifærum. Hann þorir að breyta til og takast á við ný verkefni."
Þessa mynd tók Bryndís af trékallinum sem hún kom með heim úr skólanum í dag. Á mánudaginn fór hún ásamt bekknum sínum upp á Oksefjellet og verkefnið var að finna trjágreinar til að tálga. Síðan voru greinarnar málaðar og útkoman var þessi flotti jólasveinn :-)
Það snjóaði smá um helgina og mín var náttúrulega strax komin út í snjókarlagerðina. Ég rakst hins vegar á skemmtilegt ljóð um snjókarlagerð í ljóðasafni sem heitir Årstidene og var gefið út árið 1964. Ljóðið er eftir Hermann Aune (hera) og heitir Snømann.
Jeg ser at Tulla
er flittig nå
hun lager snømann
med nese på
Jeg står og tenker:
Hvor rart det er
at snø og nedbør
og styggevær
kan løse evner
og skapekraft
og bli til snømenn
med kosteskaft.
(hera)
Þegar maður gengur stíginn við ána eru fallegu myndefnin öðrum meginn við stíginn og byggingarframkvæmdir hinum meginn.
Maður reynir bara að horfa á betri hliðina. Það var amk rólegt yfir byggingarsvæðinu þar sem það var sunnudagur.
Þær voru svo heppnar dömurnar að rekast á þessa tvær fallegu kisur hjá næstu blokk í gær. Svona líka ljúfar og gæfar, enda bara hálfstálpaðar. Þær komu náttúrulega með þær til að sýna mér og til að ná í band og kuðlað blað til að búa til "mús" úr. Svo fóru þær aftur út í garð, alsælar með kettina og "mýs" í bandi.
Við tókum okkur til mæðgurnar og bökuðum nokkrar piparkökur í gær. Það var lengi búið að bíða eftir þessu, en aldrei tími hjá mömunni til að aðstoða. Svo þegar verkefninu var skilað inn, þá hrópaði mín dama: "Jibbí piparkökur!!!"
Við reyndar áttum ekki til engifer í piparkökurnar, gleymdum að kaupa hann og nenntum ekki aftur niður í bæ. Svo að við prófuðum bara uppskriftina á engifersins. Og það kom bara vel út. Þær voru bara mildar og góðar og kannski bara líklegri til að valda lukku hjá krökkum vegna þess.
En ég set uppskriftina með hér að neðan og að sjálfsögðu með engifernum í.
250 gr hveiti (4 dl)
2 tsk kanill
1 tsk negull
1 tsk engifer
1/8 tsk pipar
1 tsk sódaduft (natron)
90 gr smjörlíki
120 gr sykur (1 dl + 3 msk)
1/2 dl síróp
1/2 dl mjólk eða vatn
Bakist í 10 mín við 180 gráður
Þessi mynd er tekin upp götuna sem við búum við. Tréð sem er á myndinni er eitt af mínum uppáhalds, risastórt og breiðir úr sér yfir götuna. Í baksýn er svo Uxafjallið okkar Bryndísar.
Á umhverfiskvöldinu í gær var fróðleikur upp um alla veggi enda krakkarnir búin að vera dugleg í vikunni. Bryndís bjó til þetta spjald um sparperur og svaraði spurningum foreldra um þær. Svo nú er bara að fara að skipta út perum ...
Hrekkjavökupartíinu var skipt upp í tvö hópa og fór hver hópur fyrir sig um bæinn að betla nammi. Eftir klukktíma stím var gerð áning hjá mér til að fá að drekka, fara á wc ...... og að sjálfsögðu að fá nammi. Svo héldu dömurnar áfram í klukkutíma enn að hrella saklausa bæjarbúa.
Afrakstur Bryndísar eftir kvöldið er svo ca eitt og hálft kíló af sykri og aukaefnum og mamman náttúrulega "agalega" hrifin.
Það var hrekkjarvaka í gær, yngsta daman boðin í hrekkjarvökupartí og þessi mynd tekin þegar hún var á leiðinni út úr dyrunum. Hún var reyndar í rauðum kjól "vondu drottningarinnar" undir úlpunni en þar sem það var 5 gráðu frost úti, þýddi ekkert annað en að búa sig vel.
Ég hélt alltaf að hrekkjarvakan væri bandarískt fyrirbæri en komst að því gær að hefðin er eldgamalt heiðið fyrirbæri sem er komin frá írsku keltunum. Það var haldið upp á keltnesku hátíðina "Samhain" 31.okt hvers árs og markaði hún upphaf að nýju ári. Keltarnir sem trúðu á anda, trúðu því að látnar sálir reyndu að komast á sitt gamla heimili á þessum degi, en að það væri hægt að snúa á þær með því að klæða sig eins og yfirnátturuleg fyrirbæri.
Þegar kristnin var svo tekin upp á Írlandi, reyndi kirkjan að útrýma þessum sið og innleiddi m.a dag hinna allraheilögu 1.nóv en allt kom fyrir ekki. Siðurinn hélst og fluttist með ísrkum og skoskum innflytjendum til bandaríkjanna á 19.öld.
Það snjóaði í gær og því orðið ansi vetrarlegt. Og í kjölfarið fær baðherbergið okkar ansi tætingslegt yfirbragð, þ.e. blautur fatnaður og töskur liggja eins og hráviði yfir allt. Maður er rétt búinn að ná að þurrka eitt, þegar næsti kemur inn úr dyrunum.
Það er búið að vera fínt veður undanfarna daga, þrátt fyrir að íslendingur hafi verið í heimsókn hjá okkur. Það hefur nefnilega verið tilfellið að í hvert skipti sem við fáum heimsókn frá Íslandi, kemur versta veður og veðrið sem amma stelpnanna fékk í mai síðastliðnum toppaði allt, enda versta maiveður í 50 ár í Noregi.
En það er samt alltaf svo gaman að fá heimsókn og síðustu daga vorum við svo heppnar að fá Katrínu Sif vinkonu stelpnanna til okkar.
Við erum ekki búin að fá neina húshitun á hjá okkur ennþá og því verður ansi kalt inni á nóttunni þegar hitastigið úti fer í frost. Það hlýnar samt yfir daginn þá daga sem sólin skín og stundum jaðrar við að það sé hlýrra úti en inni. Og oft er ráðið við hrollinum að fara út og ganga sér til hita. Við Bryndís fórum á bæjarflakk í gær eins og svo oft áður og á leiðinni hittum við m.a. þennan þröst sem var að gæða sér á síðustu reyniberjum haustsins.
Þessi hús standa við Nittelva og eru mjög reisuleg og falleg. Þegar ég flutti til Noregs, var svæðið við ána eitt af mínum uppáhalds. Undanfarið ár hafa þó verið miklar byggingarframkvæmdir þarna, bæði viðbót á opinberum byggingum og svo íbúðarblokkum. Það þýðir að á virkum dögum þegar framkvæmdir eru í gangi með tilheyrandi vinnuvélahávaða og moldroki, er lítið gaman að vera þarna. Í gær var hins vegar sunnudagur og svæðið því iðandi af fjölskyldufólki. Myndin er tekin af bryggjunni við ána og þó húsin séu falleg, sést glitta í einn af mörgum byggingarkrönum efst í vinstra horni.
Daman ákvað að taka með sér dagbókina sína í hjólatúrinn og skrifa um það sem hún sæi á leiðinni. Svo á meðan ég sat á bekkum og naut sólarinnar, sat mín við skráningu.
Það var víst ekki nógu mikið af laufum í okkar garði, þannig að þær tóku sig til vinkonurnar og sömdu við nágrannann um að fá laufin úr hans garði líka. Ætlunin var að búa til myndarlega hrúgu sem hægt væri að hoppa í ofan úr tré.
Sólin var frekar lágt á lofti og skein beint í augun á Nataliu þegar hún sneri sér við til að athuga hver væri sniglast í kringum þær og taka myndir.
Vinkonurnar gáfu sér smá tíma til að stilla sér upp fyrir ljósmyndarann áður en þær héldu áfram. Þegar Bryndís loksins kom inn, var klukkan að verða 7 og orðið dimmt og þá var hrúgan undir trjánum orðin töluvert myndarleg.